Á að hafa þegið gjafir gegn greiðum

Adams er hann mætti í dómshús í Manhattan í dag.
Adams er hann mætti í dómshús í Manhattan í dag. AFP/Timothy A. Clary

Eric Adams, borgarstjóri New York, mætti fyrir dóm í dag þar sem hann svaraði fyrir sakargiftir í ákæru dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Er hann m.a. sakaður um mútuþægni, fjársvik og hafa þegið ólöglega pólitíska styrki frá erlendum aðilum.

Adams svaraði ekki spurningum blaðamanna er hann mætti í dómsal en hefur lýst yfir sakleysi sínu. Hann biður fólk um að bíða með að dæma hann þar til hann fær að segja sína hlið á málinu.

Héraðssaksóknarinn Damian Williams sagði borgarstjórann hafa þegið gjafir árum saman.

„Háttsemin sem ákært er fyrir – erlendu fjármunirnir, fjármunir frá fyrirtækjum, leyndarhyggja árum saman – er grafalvarlegt brot á trausti almennings,“ sagði Williams.

Fékk gjafir gegn greiðum

Ákæran er 57 blaðsíðna löng og þar segir að Adams hafi þegið fyrsta farrýmis flugferðir víða um heim, hótelsvítur og gjaldfrjálsar máltíðir á lúxus veitingastöðum – meðal annars frá tyrkneskum embættismanni – gegn greiðum.

Saksóknarar segja Adams til dæmis hafa þrýst á slökkvilið borgarinnar að samþykkja nýja ræðisskrifstofu fyrir Tyrkland í Manhattan þrátt fyrir áhyggjur um öryggi háhýsisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert