Norðmaður eftirlýstur vegna sprengjutilræðis

Leifar eins símboðanna sem sprungu í Beirút og urðu á …
Leifar eins símboðanna sem sprungu í Beirút og urðu á fjórða tug manns að fjörtjóni auk þess að særa þúsundir í síðustu viku. Skjáskot/Telegram

Norska rannsóknarlögreglan Kripos hefur lýst eftir Norðmanni á alþjóðavísu vegna meintrar aðildar hans að sprengjutilræðinu gegn liðsmönnum Hizbollah-samtakanna í Beirút í Líbanon í síðustu viku sem kostaði 37 mannslíf auk þess sem um 3.000 manns hlutu benjar af þegar fjarskiptatæki liðsmanna Hizbollah-sprungu samtímis um alla borg tvo daga í röð.

Fyrri daginn sprungu símboðar en þann síðari talstöðvar og er Norðmaðurinn talinn hafa komið að því að selja samtökunum fyrrgreindu tækin. Tilkynnt var að hann væri horfinn á miðvikudaginn eftir að hann hafði ekki mætt til vinnu – fyrst á mánudaginn.

Norska öryggislögreglan PST hefur einnig hafið rannsókn á hvarfi mannsins sem var, að sögn vinnuveitanda, á ráðstefnu í Bandaríkjunum í síðustu viku, en vinnuveitandi kveðst ekkert hafa heyrt frá honum síðan á miðvikudaginn fyrir rúmri viku.

Eigandi búlgarsks fyrirtækis

Maðurinn er norskur ríkisborgari en Noregur er þó ekki fæðingarland hans og hefur fjölskylda hans í upprunalandinu heldur ekki heyrt frá honum.

„Eftir að fréttirnar [af sprengjutilræðinu] bárust reyndum við að ná sambandi við hann, en hann hefur engu svarað. Bróður hans hefur heldur ekki tekist að ná í hann. Við bíðum þess að heyra frá honum,“ segir ættingi mannsins í viðtali við fjölmiðla í upprunalandinu.

Er maðurinn skráður eigandi búlgarsks fyrirtækis sem selt hefur Hizbollah-samtökunum símboða en samtökin eru þess fullviss að Ísraelar standi á bak við ódæðin í síðustu viku.

Alls eru 410 Norðmenn eftirlýstir á alþjóðavísu samkvæmt skrám Kripos og má sjá átta þeirra á síðu alþjóðalögreglunnar Interpol þar sem hún birtir myndir af og upplýsingar um eftirlýsta.

NRK

Nettavisen

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert