Telja sig vita hvað olli eldsvoðanum

Slökkviliðið að störfum í Liseberg.
Slökkviliðið að störfum í Liseberg. AFP/Bjorn Larsson Rosvall

Talið er að upptök eldsvoðans í Oceana-vatnagarðinum í skemmtigarðinum Liseberg í Svíþjóð í febrúar hafi orðið í plastpípum sem voru festar saman með logsuðu undir vatnsrennibraut.

Þetta eru niðurstöður bráðabirgðaskýrslu sem hefur verið unnin um eldsvoðann. Rannsókn stendur enn yfir á því sem gerðist.

„Rannsóknin sýnir að eldurinn byrjaði líklega í tengslum við þessa vinnu. Eldurinn breiddist síðan út frá pípunum til vatnsrennibrautarinnar og í önnur mannvirki og olli það miklum skemmdum,“ sagði í skýrslunni, að því er kom fram í Aftonbladet.

Patrik Gilholm, 51 árs, sem starfaði sem ráðgjafi í tengslum við byggingu Oceana-vatnagarðsins, lést í eldsvoðanum. Frá árunum 2016 til 2019 sinnti hann starfi verkefnastjóra vegna framkvæmdanna.

Reiknað er með því að rannsókn á því sem gerðist ljúki snemma á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert