Úkraínumenn segja Rússa hafa skotið á loft yfir eitt hundrað drónum í nótt með þeim afleiðingum að minnsta kosti átta særðust.
Árásin var gerð degi eftir að Rússar skutu um 90 flugskeytum á Úkraínu sem varð til þess að milljónir manna voru án rafmagns.
Flugher Úkraínu sagði Rússa hafa skotið 132 drónum. Af þeim hefðu 88 verið skotnir niður en 41 ekki fundist. Drónarnir voru skotnir niður yfir fjölda héraða, þar á meðal Odesa.
„Sjö manns særðust í rússneskri drónaárás“ í Odesa, sagði innanríkisráðuneyti Úkraínu. Tugir bygginga eyðilögðust.
Í höfuðborginni Kænugarði féll dróni á heilsugæslustöð og særðist þar öryggisvörður.
Stigmögnun hefur verið í stríðinu undanfarna daga og reyna báðar þjóðir að ná yfirhöndinni áður en Donald Trump verður krýndur Bandaríkjaforseti. Hann hefur lagt áherslu á að stríðið fái skjótan endi.
Rússar segjast hafa skotið niður 47 dróna í nótt frá Úkraínumönnum. Skotmarkið var Rostov-hérað við landamæri Úkraínu þar sem mikill eldur braust út á iðnaðarsvæði.
„Eldflaugavarnarkerfi Rússa eyðilögðu 47 úkraínska dróna,“ þar á meðal 29 yfir suðurhluta Rostov-héraðs þar sem höfuðstöðvar vegna sérstakrar hernaðaraðgerðar Rússa í Úkraínu eru, sagði rússneska varnarmálaráðuneytið í tilkynningu.
Héraðsstjórinn Yuri Slyusar sagði á Telegram að mikill eldur hefði brotist út á iðnaðarsvæði í hverfinu Kamensky og að yfir 100 slökkviliðsmenn reyndu að ráða niðurlögum eldsins.