Réttindi allra trúarhópa skulu tryggð í Sýrlandi

Sýrlendingar eru að koma upp úr nærri 14 ára stríði.
Sýrlendingar eru að koma upp úr nærri 14 ára stríði. AFP/Ozan Kose

Nýr bráðabirgðaforsætisráðherra Sýrlands, Mohammad al-Bashir, segir uppreisnarmenn koma til með að tryggja réttindi allra trúarhópa.

Hann hvetur þær milljónir manna sem flúið hafa stríðið til að snúa heim aftur.

Bashar al-Assad, fyrrverandi forseti landsins, flúði til Rússlands frá Sýrlandi eftir að uppreisnarmenn náðu höfuðborginni Damaskus á sitt vald á sunnudaginn.

Sýrlendingar um allan heim fögnuðu eftir að hafa lifað við hræðslu við stjórn Assad-ættarinnar í fimm áratugi.

Þar átti hver sá sem grunaður var um andóf í hættu á fangelsisvist eða aftöku.

Óvissa ríkir nú í landinu og vilja nýir ráðamenn því fullvissa trúarlega minnihlutahópa landsins að þeir skuli ekki kúgaðir.

Bab al-Salam flóttamannabúðirnar á landamærum Sýrlands og Tyrklands, 1. janúar …
Bab al-Salam flóttamannabúðirnar á landamærum Sýrlands og Tyrklands, 1. janúar 2013. AFP/STR

„Komið til baka“

„Einmitt vegna þess að við erum íslömsk, munum við tryggja réttindi alls fólks og allra trúarhópa í Sýrlandi.“ segir Bashir sem uppreisnarmennirnir skipuðu sem bráðabirgðaleiðtoga ríkisstjórnarinnar.

Sýrlendingar standa frammi fyrir þeirri gríðarlegu áskorun að marka nýja stefnu, nú þegar þeir koma upp úr nærri 14 ára stríði.

Stríðið varð meira en 500.000 manns að bana og neyddi helming íbúa til að flýja heimili sín.

Sex milljónir þeirra neyddust til að leita skjóls annarra landa.

„Ákall mitt er til allra Sýrlendinga erlendis: Sýrland er nú frjálst land sem hefur áunnið sér stolt sitt og reisn. Komið til baka.“ sagði Bashir. „Við verðum að endurreisa, endurfæðast og við þurfum hjálp allra.“

Hann bætir við að nýir ráðamenn séu tilbúnir til að vinna með hverjum sem er, svo lengi sem viðkomandi styðji ekki eða verji Assad.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert