Biðst afsökunar á „hræðilegu atviki“

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP/Vyacheslav Prokofyev

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur beðið forseta Aserbaídsjan afsökunar á „hræðilegu atviki“ er varðar brotlendingu á farþegaþotu frá flugfélaginu Azerbaijan Airlines á miðvikudag. 

Rannsókn á orsökum flugslyssins hófst daginn eftir að það átti sér stað og töldu sumir flug- og hersérfræðingar að flugvélin hefði verið skotin niður fyrir slysni af rússneskum loftvarnarkerfum þar sem hún var á flugi yfir svæði þar sem tilkynnt hafði verið um úkraínska dróna.

Pútín vildi ekki tjá sig um hvort rússneskar loftvarnir hefðu skotið niður vélina eða ekki. Forsetaembættið í Aserbaídsjan gaf frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir að forsetinn, Ilham Aliyev, telji að flugvélin hafi orðið fyrir „ytri áþreifanlegum og tæknilegum truflunum í rússneskri lofthelgi sem leiddi til þess að flugstjórinn missti stjórn á vélinni.“

Vélin var á leiðinni frá höfuðborginni Bakú í Aserbaísjan til Grosní í Rússlandi. Hún brotlenti í vesturhluta Kasakstan. 

Fer fram á óháða rannsókn 

Pútín hefur óskað eftir því að óháð rannsókn fari fram á tildrögum slyssins áður en fólk fari að draga ályktanir. 

„Yfirvöld í Kasakstan munu kalla til sérfræðinga frá Rússlandi, Aserbaídsjan og Brasilíu til að rannsaka atvikið. Þessi vinna verður hlutlæg og gagnsæ,“ sagði Pútín. 

38 af 67 farþegum vélarinnar létu lífið þegar flugvélin hrapaði en fólk sem lifði flugslysið af lýsir því að hafa heyrt hvelli áður en vélin hrapaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka