Segja fyrsta einræktaða barnið fætt

Brigitte Boisselier.
Brigitte Boisselier. AP

Brigitte Boisselier yfirmaður fyrirtækisins Clonaid, fullyrti í dag að fyrsta einræktað barnið sé fætt. Það sé stúlka sem nefnist Eva. Sagði Boisselier að barnið væri búið til úr erfðaefni frá þrítugri bandarískri konu. Boisselier, sem er efnafræðingur, hélt blaðamannafund í Hollywood á Flórída í Bandaríkjunum í dag en lagði þar ekki fram gögn sem staðfestu erfðafræðileg tengsl móður og dóttur.

„Barnið er heilbrigt og því líður vel. Við erum hamingjusamir foreldrar," sagði Boisselier sem bætti við að stúlkan hefði verið 14 merkur. Hún sagði að barnið fengi að fara heim eftir þrjá daga og óháður sérfræðingur fengi að taka sýni úr barninu til að staðfesta að það hefði verið einræktað. Búist er við að niðurstöður þeirra rannsókna liggi fyrir eftir viku.

Boisselier sagði að móðir stúlkunnar hefði lagt til erfðaefni sitt og fósturvísinum, sem einræktaður var í kjölfarið, hefði síðan verið komið fyrir í legi konunnar sem gekk með barnið og eignaðist það eftir eðlilega meðgöngu. Ef fullyrðingar Boisselier eru réttar er barnið nákvæm erfðafræðileg eftirmynd móðurinnar.

Vísindamenn hafa almennt efast um sannleiksgildi fyrri yfirlýsinga Boisselier og munu væntanlega krefjast nákvæmra upplýsinga um hvernig erfðaefnisrannsóknin verður gerð áður en þeir fást til að trúa Boisselier.

Clonaid segir að von sé á fjórum einræktuðum börnum í heiminn á næstu vikum. Einu í Bandaríkjunum, einu í Evrópu og tveimur í Asíu.

Clonaid var stofnað á Bahamaeyjum árið 1997. Stofnandinn var Frakkinn Claude Vorilhon, fyrrverandi blaðamaður og leiðtogi samtaka sem kölluð eru Raéliens. Vorilhon og fylgismenn hans segja að geimverur hafi birst honum árið 1970 og sagst hafa skapað allt líf á jörðu með einræktun.

Boisselier, sem starfaði áður sem markaðsstjóri hjá lyfjafyrirtæki, segist vera biskup í Raélien-reglunni og segir að Clonaid hafi hugmyndafræðileg tengsl við þá reglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka