Los Angeles Times.">

Powell: hernaður gegn Sýrlandi og Íran ekki í deiglunni

Donald Rumsfeld, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Donald Rumsfeld, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AP

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að nýlegar viðvaranir Bandaríkjamanna í garð stjórnvalda í Íran og Sýrlandi feli ekki í sér hótun um hernaðaraðgerðir. "Við teljum að þessi ríki, Íran, Sýrland og fleiri, ættu að gera sér grein fyrir því að framleiðsla á gereyðingarvopnum og stuðningur við hryðjuverkamenn er þeim ekki til hagsbóta," sagði Powell í viðtali við Los Angeles Times.

"Það þýðir hins vegar ekki að stríð á hendur þeim sé yfirvofandi, einungis að heimsmyndin hafi breyst." Powell lét ummæli sín falla eftir að Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, hafi sakað Sýrlendinga um að koma samstarfsmönnum Saddams Husseins, sem hafa flúið Bagdad, til bjargar. Rumsfeld hafði einnig sakað Sýrlendinga um að hafa flutt nætursjónauka og annan hernaðarlegan mikilvægan búnað til Íraks. Þá sagði Rumsfeld að íraskir uppreisnarmenn, sem stjórnvöld í Íran styðja, hafi haldið yfir landamæri Íraks. Ummæli Rumsfeld voru túlkuð á þann veg að Bandaríkjamenn hefðu í hyggju að grípa til einhverra aðgerða gegn fyrrnefndum löndum.

Powell sagði að ríkin tvö, Sýrland og Íran, yrðu að gera sér grein fyrir afleiðingum sem framferði þeirra hefði í för með sér. "Það þýðir ekki að eina úrræðið sé hernaður. Við kunnum að bregðast við ögrunum á marga vegu," var haft eftir Powell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert