Saksóknari segir Huntley hafa myrt Holly og Jessicu

Ian Huntley myrti Jessicu Chapman og Holly Wells, 10 ára stúlkur sem hurfu í bænum Soham í Cambridge-skíri í fyrrasumar, að því er Richard Latham saksóknari hélt fram er hann flutti sóknarræðu sína við réttarhald yfir Huntley og sambýliskonu hans, Maxime Carr, í dag.

Huntley, sem er 29 ára og fyrrverandi húsvörður í skóla í Soham, neitar sök. Latham sagði hjúin hafa verið handtekin eftir að lögreglan hefði gert „afar mikilvæga uppgötun“, eins og hann komst að orði.

„Af einhverri ástæðu, sem einungis hann einn veit, kaus hann að myrða stúlkurnar báðar. Flutti hann síðan líkin á brott frá Soham," sagði Latham en rétt hjá púlti hans sátu foreldrar stúlknanna.

Latham hélt því fram að Huntley hefði reynt að fela líkin og ganga þannig frá þeim að þau fyndust aldrei. „Það lá við að honum tækist það," sagði hann.

Lík stúlknanna fundust í skurði á afskekktu svæði tæpum hálfum mánuði eftir að þær hurfu. Saksóknarinn sagði að ekki væri talið að Carr hefði átt beina aðild að morðunum, heldur hefði hún villt um fyrir lögreglu.

Hún hefur neitað ákæru þess efnis að hún hafi aðstoðað brotamann og átt samráð við hann um að spilla fyrir framgangi réttvísinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert