Skær ljós á mikilli hreyfingu náðust á myndband yfir Mexíkó

Ljósmynd af myndbandi mexíkóska hersins sem sýnir ljós á miklum …
Ljósmynd af myndbandi mexíkóska hersins sem sýnir ljós á miklum hraða á himninum. AP

Mexíkóski flugherinn hefur sent frá sér myndband sem sýnir 11 skær ljós á mikilli hreyfingu á himninum. Upptakan fór fram með innrauðri myndavél. "Við erum ekki alein. Þetta er svo undarlegt," heyrðist flugmaður segja í flugvél þar sem upptakan fór fram. Varnarmálaráðuneytið í Mexíkó hefur staðfest að upptakan sé á vegum flughersins, en hefur neitað að tjá sig um innihald hennar, að sögn BBC.

Mexíkóbúinn Jaime Maussan, sem rannsakar fljúgandi furðuhluti, segir að hundruð myndbanda hafi komið fram í dagsljósið sem eigi að sýna fljúgandi furðuhluti, en aldrei fyrr hafi heryfirvöld lagt fram slík gögn. Hann segir að flugherinn hafi tekið myndbandið upp þegar eftirlit fór fram með mögulegum eiturlyfjaflutningum í Campeche í mars.

Hlutirnir sáust ekki með berum augum, en flugmennirnir urðu varir við þrjá þeirra á radar og kveiktu á innrauðri myndavél til þess að fylgja þeim eftir. Haft er eftir German Marin, einum flugmanna vélarinnar, að hann hafi fundi fyrir hræðslu fyrir hinu óþekkta. Þá segist Magdaleno Castanon, flugstjóri vélarinnar, telja að "ljósin" hafi haft vitneskju um að herinn hefði hafið eftirför. Hann segir að hlutirnir hafi komið fram á radar fyrir aftan vélina, við hlið hennar og fyrir fram. "Á þessum tímapunkti var mikil spenna meðal áhafnarinnar," er haft eftir Castanon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka