Kveikt í íslömskum skóla í Hollandi

Slökkviliðsmenn börðust við elda í íslömskum skóla í Uden í …
Slökkviliðsmenn börðust við elda í íslömskum skóla í Uden í Hollandi í gærkvöldi. AP

Grunur leikur á að brennuvargar hafi kveikt í íslömskum skóla í Hollandi og valdið miklum skemmdum á byggingunni, að því er BBC greinir frá. Ofbeldisalda hefur riðið yfir landið eftir morðið á kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gogh.

Skólinn sem kveikt var í er í bænum Uden en í veggjakroti á byggingunni var vísað í morðið á van Gogh. Talið er að hann hafi verið myrtur af íslömskum ófriðarseggi.

Van Gogh, sem var 47 ára, var grafinn í Amsterdam á þriðjudag. Hann hafði gert umdeilda mynd um íslamska menningu.

Allnokkrir menn, sem talið er að séu róttækir Íslamstrúarmenn, hafa verið handteknir í tengslum við dauða van Gogh. Talið er að hollensk-marokkóskur maður, Mohammed Bouyeri, sem er 26 ára, hafi myrt van Gogh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert