Tóbakssala upprætt í Bhútan

Hið afskekkta konungdæmi Bhútan í Himalajafjöllum hefur bannað alla tóbaksnotkun í landinu frá og með miðvikudeginum. Verslunum, hótelum, veitingahúsum og börum sem selt hafa tóbak hefur verið skipað að losa sig við lagera sína fyrir 17. desember.

Bannið mun þó ekki ná til erlendra ferðamanna, útlendra stjórnarerindreka og starfsmenn alþjóðlegra samtaka.

Láta mun nærri að Bhútan sé fyrsta landið í heiminum sem bannar tóbakssölu með öllu. Er bannið liður í tilraunum stjórnvalda að gera Bhútan að reyklausu landi.

„Við viljum losa íbúana við mengun og stuðla að góðri heilsu þeirra,“ sagði ráðherra að nafni Jigme Thinley. Bann við tóbakssölu er þegar komið til framkvæmda í 18 af 20 stjórnsýsluhéruðum Bhútan.

Höfuðborgarhéraðið Thimphu og Samdrup Jongkhar í austurhluta landsins eru einu héruðunin sem enn er leyfilegt að selja tóbak í. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti landsins boðar þung viðurlög við tóbakssölu eftir miðvikudaginn. Þeir sem staðnir verða að sölu verða sektaðir um sem svarar 210 dollurum og eigendur verslana og hótela sem það gera verða sviptir rekstrarleyfi.

Þá hefur verið ákveðið að setja 100% toll á allt tóbak sem Bhútanar flytja til landsins til eigin neyslu. Útlendingum sem staðnir verða að því að selja tóbak verður refsað og tekið á þeim sem smyglurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert