Colin Powell segir af sér

Colin Powell.
Colin Powell. AP

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér, að því er fram kemur á Sky News sjónvarpsstöðinni. Til stóð að hann hitti Davíð Oddsson á morgun og utanríkisráðherra Palestínu í næstu viku, 23. nóvember. Ekki liggur fyrir hver ástæða afsagnarinnar er, en leitt er getum að því að eftirmaður hans verði Condoleezza Rice, ráðgjafi forsetans í öryggismálum. Búist er við yfirlýsingu frá George W. Bush Bandaríkjaforseta vegna afsagnarinnar innan klukkustundar.

Á meðal annarra nafna sem nefnd hafa verið sem hugsanlegur eftirmaður Powells er John Danforth, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, en hann er fyrrverandi öldungadeildarmaður fyrir Missouri, vígður prestur og að sögn ákaflega íhaldssamur.

Ágreiningur hefur verið milli Powell og Bush um utanríkismálin og herma heimildir að Powell hafi oft ekki verið hafður með í ráðum um mikilvægar ákvarðanir. Leitt hafði verið getum að því að brotthvarf Powells yrði til að lægja þær deilur, sem verið hafa milli hófsamra manna og íhaldssamra innan stjórnarinnar, og auka um leið áhrif Dicks Cheneys varaforseta á stefnuna í öryggismálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert