Norska þingið hafnaði í dag frumvarpi um breytingar á lögum sem hefðu veitt samkynhneigðum sama rétt og gagnkynhneigðum til þess að ganga í hjónaband og að auki gert þeim kleift að ættleiða börn.
Samkynhneigðir í Noregi hafa rétt til þess að skrá sig í lögfesta sambúð, en fá ekki að giftast í kirkju. Að öðru leyti njóta þeir að mestu leyti sömu réttinda og gagnkynhneigðir, en þeir hafa þó ekki rétt til þess að ættleiða börn.
Meirihluti þingmanna hafnaði því að gera breytingar á gildandi lögum um hjónabönd. Kristilegir demókratar, flokkur Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, var í hópi þeirra sem lagðist gegn breytingunum.