Powell deilir á Rússa

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands deildu hart um forsetakosningarnar í Úkraínu og fleiri mál á fundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Búlgaríu í gær.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gagnrýndi rússnesk stjórnvöld fyrir að hafa "ekki efnt loforð um lýðræði og virðingu fyrir mannfrelsi". "Við höfum enn áhyggjur af þróuninni í Rússlandi, einkum hvað varðar prentfrelsi og réttarríki," sagði Powell.

Hann gagnrýndi einnig Rússa fyrir að hafa ekki efnt loforð sín um að flytja hersveitir sínar frá tveimur fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna, Georgíu og Moldóvu.

Powell neitaði ásökunum Rússa um að Bandaríkin og fleiri vestræn ríki hefðu beitt ÖSE til að hafa pólitísk afskipti af innanríkismálum Úkraínu og grafa undan áhrifum Rússa þar og í fleiri fyrrverandi sovétlýðveldum.

Áður flutti Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræðu þar sem hann gagnrýndi afskipti ÖSE af forsetakosningunum í Úkraínu í síðasta mánuði, en eftirlitsmenn stofnunarinnar sökuðu þá úkraínsk stjórnvöld um viðamikil kosningasvik. "Við megum ekki láta það viðgangast að kosningaeftirlit sé gert að pólitísku tæki," sagði Lavrov.

Sofía. AFP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert