Rússar gagnrýna Finna og Dani

Rússneskir ráðamenn saka Dani og Finna um að fylkja sér með þeim þjóðum innan Evrópsambandsins (ESB) sem vantreysti Rússum.

Sergej Jastrzjembskíj, fulltrúi Pútins Rússlandsforseta hjá ESB, segir að ekki verði lengur horft fram hjá því að bandalag þjóða innan ESB reyni að taka fram fyrir hendur stærri aðildarríkja.

Hann heldur því fram að það séu helst ný aðildarríki sambandsins sem séu óvinveitt Rússum, en í þeim flokki séu líka Finnland og Danmörk.

Í Finnlandi valda þessi ummæli fulltrúa Rússlandsforseta ráðamönnum nokkrum áhyggjum. Tarja Halonen forseti ætlar að eiga fund með Pútín í næstu viku, þar sem vænta má að hann geri nánar grein fyrir óánægju Rússa, að því er segir á vefsetri Norðurlandaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert