Hákarlar éta ástralskan brimbrettamann

mbl.is

Átján ára ástralskur brimbrettamaður varð í dag tveim hvíthákörlum að bráð úti fyrir vinsælli sólbaðsströnd við borgina Adelaide.

Að sögn lögreglu hefur hvorki fundist tangur né tetur af manninum eða sést til hákarlanna eftir að þeir réðust á manninn er hann datt af brimbretti sem dregið var af hraðbáti.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC. Þetta er í annað sinn á innan við viku sem hákarlar verða manni að bana við strendur Ástralíu.

Brimbrettamaðurinn var ásamt þrem félögum sínum um 300 metra úti fyrir ströndinni. Félagar hans urðu vitni að því er annar hákarlinn réðist á hann þegar hann datt af brimbrettinu og hinn hákarlinn tók það sem eftir var af manninum. Hákarlarnir voru sagðir um fimm metra langir.

Þetta er í fyrsta sinn í 14 ár sem hákarlar verða manni að bana úti fyrir ströndum Adelaide. Þótt Ástralía sé alræmd fyrir árásir hákarla verða í raun tiltölulega fá dauðsföll af völdum hákarla á ári.

Í síðustu viku lést 38 ára maður eftir að hákarl réðist á hann þar sem hann var að sverðfiskveiðum úti fyrir strönd Queensland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert