Drap systur sína fyrir að vera í buxum

Sautján ára gömul stúlka lést af sárum sínum í Tyrklandi í dag eftir að 27 ára gamall bróðir hennar skaut hana vegna þess að hún ætlaði í buxum í brúðkaup. Lögregla hefur handtekið piltinn en atvikið átti sér stað í bænum Batman í suðausturhluta landsins, samkvæmt upplýsingum tyrknesku fréttastofunnar Anatolia.

Eftir mjög harkalegt rifrildi systkinanna náði bróðirinn í riffil og skaut systur sína. Henti hann henni svo fram af þaki heimilis þeirra til að láta líta svo út sem hún hefði framið sjálfsmorð. Henni var komið á spítala þar sem hún lést af sárum sínum.

Þrátt fyrir að margar tyrkneskar konur sem búa í stórum borgum njóti mikils frelsis eru gamlar hefðir feðraveldisins sterkar úti á landsbyggðinni og sérstaklega í Anatolia-héraði í suðausturhluta landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert