Ákærður fyrir að myrða 9 börn sín

Réttarhöld hófust í gær yfir karlmanni í Kalíforníu í Bandaríkjunum, sem ákærður er fyrir að myrða 9 börn sín. Sögðu saksóknarar að maðurinn hefði reynt að drottna yfir börnunum og barið þau með hafnaboltakylfum. Þá hefði hann misþyrmt nokkrum af dætrum sínum kynferðislega.

Maðurinn, sem heitir Marcus Wesson og er 57 ára, krafðist þess einnig að börn sín læsu Biblíuna í nokkrar klukkustundir á dag. Þá lét hann dætur sínar hylja höfuð sitt og ganga í síðum kjólum, að sögn Lisa Gamoian saksóknara.

Wesson gæti átt yfir höfði sér dauðadóm ef hann verður fundinn sekur um að myrða börnin, sem voru á aldrinum 1 til 25 ára. Þau voru öll skotin með einu skoti í hægra augað með skammbyssu.

Pete Jones, verjandi Wessons, segir að einn dætra Wessons, sem hét Sebhrenah, hafi skotið börnin og síðan framið sjálfsmorðs. Benti hann á að ekki hefðu fundust púðurleifar á höndum Wessons þegar hann var handtekinn.

Gamoian sagði kviðdómnum að ekki hefðu fundist nein fingraför á byssunni, sem notuð var, og engar púðurleifar hefðu heldur fundist á fórnarlömbunum.

Gamoian sagði að upphaf fjölskyldu Wessons væri að rekja til þess að hann hóf samband við konu fyrir 30 árum en síðan eignaðist Wesson barn með 14 ára gamalli dóttur konunnar og giftist henni síðan. Á næstu árum eignaðist Wesson síðan börn með eiginkonu sinni og síðan með dætrum sínum og frænkum.

Lögregla var kvödd að húsi Wessons í mars í fyrra en þá höfðu nokkrir úr fjölskyldunni reynt að ná börnum sínum út úr húsinu. Þegar lögregla réðist til inngöngu var Wesson sá eini sem þar var á lífi en lögreglan fann 9 lík í húsinu og 10 líkkistum hafði verið staflað upp í stofunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert