Há sjálfsmorðstíðni í rússneska hernum rakin til ofbeldisfullra níðingsverka

Rússneskur hermaður. Vladimír Pútín Rússlandsforseti í bakgrunni.
Rússneskur hermaður. Vladimír Pútín Rússlandsforseti í bakgrunni. AP

Margir hermenn í rússneska hernum frömdu sjálfsmorð árið 2004 og er helsta ástæðan talin vera sú að mikið sé níðst á ungum nýliðum, að því er helsti saksóknari hersins sagði í dag.

246 hermenn frömdu sjálfsmorð í fyrra og í helmingi tilvika er ástæðan sú að „þeir gátu ekki afborið þá auðmýkingu sem þeir þurftu að þola frá öðrum hermönnum,“ sagði Alexander Savenkov hershöfðingi á blaðamannafundi í Moskvu í dag.

Hefð er að hermenn í rússneska hernum séu auðmýktir á mjög ofbeldisfullan hátt, en mannréttindasamtök hafa gagnrýnt þetta í mörg ár. Savenkov sagði að verið væri að rannsaka 59 málanna og litið væri á þau sem glæpamál. Í sumum tilvikum kæmu háttsettir menn í hernum við sögu.

Þá sagði hann að glæpum sem hermenn fremja hefði fjölgað stórlega en hann gaf þó engar nákvæmar tölur. Sagði hann fjölgunina eiga rætur að rekja til skorts á aga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert