Leyfilegt að lögsækja sjúklinga sem neyta kannabisefna

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu í dag að leyfilegt sé að sækja þá sjúklinga í landinu til saka sem reykja kannabisefni samkvæmt læknisráði. Geta sjúklingar sem lina sársauka sinn með þessháttar reykingum átt á hættu að verða sóttir til saka, verði þeir staðnir að verki. Leyfi einstakra ríkja ná ekki að vernda sjúklingana frá armi laganna.

Þetta eru að sögn Associated Press sár vonbrigði fyrir þá sem barist hafa fyrir því að sjúklingar fái að lina þjáningar sínar með notkun kannabisefna. Um þessar mundir hafa læknar í tíu ríkjum landsins leyfi til skrifa upp á notkun kannabisefna fyrir sjúklinga sína.

Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum enda vandséð hvort sakfelling vegna neyslu á kannabisefnum í lækningaskyni væri brot á alríkislögum.

Forsaga þess er sú að tvær konur frá Kaliforníu, sem eru alvarlega veikar, sóttu John Ashcroft, þáverandi dómsmálaráðherra landsins, til saka. Óskuðu þær þess að fá leyfi til að rækta, reykja eða kaupa kannabisefni án þess eiga á hættu að verða handteknar fyrir vikið. Önnur kvennanna þjáðist vegna æxlis í heila, stanslausrar klígju, síþreytu og verkja. Að sögn hennar linuðust þjáningarnar aðeins ef hún reykti kannabis á nokkurra klukkustunda fresti. Kvaðst hún hafa verið hálf lömuð fram til þess að hún hóf að neyta kannabisefna. Hin konan þjáðist vegna sjúkdóms í hrygg. Stóð hún fyrir kannabisræktun í bakgarði sínum.

Lög Kaliforníuríkis um kannabisefni í lækniskyni voru samþykkt árið 1996. Þau hafa hingað til leyft íbúum ríkisins að rækta kannabisefni og reykja þau. Þá hefur verið leyfilegt að verða sér úti um efni í lækningaskyni ef fyrir liggur samþykki læknis. Íbúar í Alaska, Colorado, Havaí, Maine, Montana, Nevada, Oregon, Vermont og Washingtonfylki hafa svipuð lög og þau sem eru við lýði í Kaliforníu. Í þessum ríkjum geta læknar gefið sjúklingum sem þjást af krabbameini, alnæmi eða öðrum alvarlegum langvinnum sjúkdómum leyfi til að neyta kannabisefna.

Andstæðingar bannsins segja þetta vonbrigði enda hafi borgurum ríkjanna verið veitt aukin réttindi á síðustu árum. Miklu nær hefði verið að berjast gegn skotvopnaeign og ofbeldi gegn konum, en þeim sem rækta kannabisefni í litlu magni í lækningaskyni til eigin nota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert