Pútín segir orkumál verða ofarlega á baugi á næsta fundi G-8 ríkjanna

Pútín á blaðamannafundi að loknum G-8 fundinum í Gleneagles í …
Pútín á blaðamannafundi að loknum G-8 fundinum í Gleneagles í dag. AP

Orkumál verða sett á oddinn á næsta fundi leiðtoga G-8 ríkjanna, helstu iðnríkja heims, að því er Vladimir Pútín, forseti Rússlands greindi frá í dag, en fundurinn verður haldinn í Rússlandi á næsta ári. „Við munum leggja fram alþjóðlega stefnu í orkumálum,“ sagði Pútín á blaðamannafundi að loknum G-8 fundinum í Gleneagles í dag. Rússar taka við forsæti G-8 fundarins af Bretum í byrjun árs 2006 og fundurinn verður síðan haldinn í St. Pétursborg að ári.

Forsetinn undirstrikaði að í 70 til 80% þeirra umræðna sem fram fóru á fundinum nú hafi verið komið inn á orkumál, og að Rússar væru „án efa helstu framleiðendur olíu og jarðgass í heiminum.“

Baráttan gegn hryðjuverkum og fátækt í heiminum verða einnig ofarlega á baugi á fundinum, auk málefna þeirra ríkja sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum að því er Pútín sagði í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert