Japanir báðust afsökunar á stríðsglæpum í seinna stríði

Tugir þúsunda Japana minnstust stríðslokanna í dag með því að …
Tugir þúsunda Japana minnstust stríðslokanna í dag með því að heimsækja Yasukuni musterið. AP

Japanir minntust þess í dag að 60 ár eru liðin frá því að þeir gáfust upp í síðari heimsstyrjöldinni með því að biðja aðrar Asíuþjóðir afsökunar á því hvernig þeir komu fram í stríðinu.

Junichiro Koizumi forsætisráðherra fór ekki að minnisvarða um Japani sem féllu í stríðinu í tilefni dagsins en tugir þingmanna fóru, þar á meðal tveir ráðherrar, auk þess sem tugir þúsunda borgara komu á staðinn. Minnisvarðinn hefur verið Kínverjum og Suður-Kóreumönnum mikill þyrnir í augum en við hann eru meðal annars dæmdir stríðglæpamenn heiðraðir.

Í dag eru sextíu ár liðin frá því Hirohito keisari tilkynnti þjóð sinni að Japanir hefðu gefist upp. Koizumi baðst afsökunar á framgöngu Japana í stríðinu og fullyrti að þjóðin væri auðmjúk þegar kæmi að því að gera upp þátt hennar í stríðinu.

„Japanir ollu gríðarlegum skaða og þjáningum hjá mörgum þjóðum, sérstaklega þjóðum í Asíu, með nýlendustjórn sinni og yfirgangi,“ sagði Koizumi við athöfn í Tokyó þar sem 7.000 ekkjur og ekklar sem misstu maka sína í styrjöldinni voru viðstödd.

„Ég biðst hér enn og aftur innilegrar afsökunar og læt í ljós iðrun og sorg vegna allra fórnarlamba stríðsins, bæði hér heima og erlendis,“ sagði hann.

Yasukuni helgidómurinn hefur vakið miklar deilur og þótt skyggja á tilraunir Japana til að reyna að ná sáttum við þjóðirnar sem þeir hertóku í stríðinu. Gagnrýni og reiði hefur blossað upp að nýju nú þegar verið er að minnast þess að 60 ár eru liðin frá lokum stríðsins.

Koizumi hélt sig frá helgidómnum í dag en hann hefur farið að honum fjórum sinnum síðan hann tók við embætti forsætisráðherra og það hefur farið mjög fyrir brjóstið á þeim þjóðum sem liðu fyrir grimmdarverk Japana í stríðinu.

„Enn þann dag í dag er fullt af hlutum við minnisvarðann þar sem árásargirni Japana er lofuð og engin merki eru um iðrun vegna glæpa þeirra í stríðinu,“ sagði í leiðara dagblaðsins China Daily. Segir þar enn fremur að heimsóknir forsætisráðherrans að helgidómnum séu vanvirðing fyrir þá sem þjáðust vegna grimmdarverka Japana.

Sumir Japanir, þar á meðal þingmenn, sjá hins vegar ekkert athugavert við að Japanir, sem hafi margsinnis beðið afsökunar á glæpum sínum stríðinu og urðu sjálfir illa úti í því, m.a. var kjarnorkusprengjum varpað á tvær japanskar borgir, fari að minnisvarðanum og minnist fallinna hermanna. Sumir sem fóru þangað í dag voru vonsviknir yfir að Koizumi hafi ekki látið sjá sig.

Kínverjar og Suður-Kóreumenn saka Japani um að iðrast ekki af einlægni og benda í því sambandi á kennslubækur sem gefnar voru út í apríl þar sem fjallað var um seinni heimsstyrjöldina en lítið sem ekkert minnst á glæpi Japana í stríðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert