Koizumi segir að Japanar hefðu átt að sniðganga heimsstyrjöldina

Yasukuni musterið í Tókýó.
Yasukuni musterið í Tókýó. Reuters

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, sagðist í dag ekki sammála þeirri skoðun, sem sett er fram í Yasukuni musterinu í Tókýó, að Japanir hafi gerst aðilar að síðari heimsstyrjöldinni til að viðhalda sjálfstæði sínu gagnvart vesturveldunum.

„Það held ég ekki," sagði Koizumi í spjallþætti í Asahi sjónvarpsstöðinni þegar hann var spurður hvort hann væri sammála þessari skoðun. „Ég held að Japan hefði átt að koma sér undan þátttöku í því stríði."

Árlegar heimsóknir Koizumis í musterið hafa vakið upp reiði í Kína og Suður-Kóreu en Japanar gerðu innrás í þessi ríki á fyrri hluta 20. aldar. Í musterinu er minning fallinna stríðsmanna Japana heiðruð, þar á meðal minning 14 dæmdra stríðsglæpamanna, sem teknir voru af lífi eftir síðari heimsstyrjöldina.

Koizumi sagði í þættinum, að vissulega væru umræddir 14 menn stríðsglæpamenn en hann hefði með heimsóknum sínum ekki verið að minnast þessara tilteknu manna heldur þeirra, sem börðust í stríði og týndu lífi gegn vilja sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert