Réttarhöld hófust í dag yfir sex mönnum í Englandi sem grunaðir eru um að hafa rænt, pyntað og nauðgað tveimur stúlkum, myrt aðra þeirra og reynt að myrða hina. Stúlkan sem var myrt, hin 16 ára Mary-Ann Leneghan, var stungin til bana en vinkona hennar slapp lifandi frá því að vera skotin í höfuðið. Báðar voru þær pyntaðar klukkustundum saman, neyddar til þess að reykja krakk og heróín og þvínæst raðnauðgað.
Lík Mary-Ann fannst í Prospect Park almenningsgarðinum í Reading í maí í fyrra. Hinir ákærðu eru á aldrinum 18- 24 ára og segjast allir saklausir af glæpunum. Árásarmennirnir sögðu stúlkunum að þær myndu deyja þegar þeir hefðu lokið sér af, að því er sækjandi málsins greindi kviðdómi frá í dag. Mennirnir hefðu átt ólíkan þátt í misþyrmingunum og morðinu en að hafa ætti í huga að þeir hafi allir tekið þátt í því að drepa Mary-Ann og reynt að drepa vinkonu hennar.
Stúlkunum var rænt á bílastæði við krá nokkra í Reading og þær settar í skottið á fólksbifreið. Þegar fyrrgreindum misþyrmingum var lokið fóru mennirnir með stúlkurnar í Prospect Park þar sem þeir settu kodda yfir andlit þeirra beggja. Stungu þeir Mary-Ann til bana og skutu í höfuð vinkonu hennar í gegnum kodda. Hún missti meðvitund en lifði af.
Að sögn saksóknara var þetta allt saman hefnd af hálfu mannanna þar sem þeir hefðu talið stúlkurnar eiga þátt í því að einn þeirra, Adrian Thomas, var rændur. Thomas hafi fengið félaga sína til þess að ræna stúlkunum. Nafn stúlkunnar sem lifði af hefur ekki verið gefið uppi. Fréttavefur BBC greindi frá þessu.