Fóstureyðingar bannaðar með nýjum lögum í Suður-Dakóta

Fóstureyðingar eru svo að segja með öllu bannaðar í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum eftir að ríkisstjórinn þar, Mike Rounds, undirritaði í gær ný lög sem hann sagði vera „beina árás“ á úrskurð hæstaréttar Bandaríkjanna sem lögleiddi fóstureyðingar fyrir 33 árum. Þeir sem vilja heimila fóstureyðingar segjast ætla að berjast gegn nýju lögunum.

Samkvæmt lögunum teljast læknar brotlegir ef þeir eyða fóstri í þeim tilvikum þar sem líf móðurinnar er ekki beinlínis í hættu. Engar undantekningar eru gerðar í þeim tilvikum þar sem nauðgun eða sifjaspell hafa leitt til þungunar. Eiga læknar yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi fyrir að eyða fóstri ólöglega.

Líklegt er talið að dómstólar í S-Dakóta fresti gildistöku laganna, sem eiga að öðlast gildi 1. júlí, sem þýðir að hæstiréttur Bandaríkjanna þurfi að fjalla um þau og fella úrskurð yfirvöldum í S-Dakóta í vil áður en framfylgja þurfi lögunum.

„Við ætlum að berjast gegn þessum lögum,“ sagði Kate Looby, framkvæmdastjóri Planned Parenthood í S-Dakóta, en samtökin reka einu læknamiðstöðina í ríkinu þar sem fóstureyðingar eru gerðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert