Flýr land til að forðast vandarhögg

Eigandi veitingastaðar í Sádi-Arabíu hefur flúið land eftir að hafa verið dæmdur til 90 vandarhögga fyrir að ráða tvær konur til starfa. Var dómurinn kveðinn upp af dómstól í hafnarborginni Al-Qatif, en hann komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn, sem heitir Nabil al-Ramadan, hefði gerst sekur um ósiðlegt athæfi með ráðningunni.

Í samtali við dagblaðið Arab News sagði al-Ramadan að hann hefði ákveðið að flýja til að koma sér undan hýðingunni, sem hann taldi móðgun við sig. "Til að koma mér hjá þessum aðstæðum hef ég ákveðið að leggjast í ferðalag áður en refsingunni verður framfylgt," sagði al-Ramadan.

Umræddar konur höfðu aðeins unnið í fjórar klukkustundir á einum vinnudegi þegar yfirvöld ákváðu að grípa í taumana og loka veitingastaðnum. Má segja að ákvörðunin tengist afar íhaldssamri afstöðu yfirvalda til hlutverks kvenna í sádi-arabísku samfélagi.

Fyrir utan að þurfa að lúta ýmsum ströngum siðvenjum er konum þar í landi ekki heimilt að blanda geði við karlmenn, nema um sé að ræða nánustu skyldmenni. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi opnað ýmis svið atvinnulífsins fyrir konum er þeim enn óheimilt að sinna flestum störfum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert