DNA-rannsókn bendir ekki til að kennari hafi myrt barnafegurðardrottningu

John Mark Karr í lögreglufylgd í Taílandi.
John Mark Karr í lögreglufylgd í Taílandi. Reuters

Lífssýni, sem fundust við lík barnafegurðardrottningarinnar JonBenet Ramsey á sínum tíma, eru ekki úr kennaranum John Mark Karr, sem handtekinn var nýlega í Taílandi, grunaður um að hafa myrt stúlkuna. Þetta hafa fjölmiðlar í Colorado eftir heimildarmönnum.

Sjónvarpsstöðin KUSA TV segir einnig, að saksóknari ríkisins ætli ekki að leggja fram ákæru á hendur Karr.

JonBenet Ramsey fannst látin í kjallara heimilis síns árið 1996 en hún varð sex ára. Karr var þá kennari í heimabæ stúlkunnar. Þegar hann var handtekinn í Taílandi fyrir hálfum mánuði sagðist hann hafa orðið stúlkunni að bana fyrir slysni.

Bandarískir fjölmiðlar höfðu eftir fyrrverandi eiginkonu Karrs að hún hefði verið með honum á allt öðrum stað daginn sem morðið var framið og fleiri vísbendingar komu fram um að játningin stæðist ekki.

Morðið á JonBenet Ramsey vakti mikla athygli á sínum tíma og varð eitt af þekktustu morðmálum Bandaríkjanna. Þótt stúlkan væri aðeins sex ára hafði hún tekið þátt í mörgum fegurðarsamkeppnum og á myndum sem sýndar voru af henni var hún klædd sem fegurðardrottning og í tælandi stellingum. Sumar myndirnar þóttu jafnvel jaðra við barnaklám og málið vakti umræðu um fegurðarsamkeppnir fyrir börn.

JonBenet fannst látin á heimili sínu í Boulder í Colorado, í kjallara húss foreldra hennar 26. desember 1996. Hún hafði verið kyrkt og barin. Líkið fannst sjö klukkustundum eftir að móðir hennar fann miða þar sem fram kom að stúlkunni hefði verið rænt og yrði ekki sleppt nema gegn lausnargjaldi.

Grunur féll á foreldra stúlkunnar, John Ramsey, og eiginkonu hans, Patsy, sem dó úr krabbameini í júní. Þau neituðu mánuðum saman að ræða við lögreglumenn sem reyndu að yfirheyra þau. Þau réðu einkaleynilögreglumenn til að rannsaka málið og sérfræðinga í almannatengslum til að verja þau í fjölmiðlunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert