Þýsk systkini berjast gegn lögum sem banna sifjaspell

Mikið er nú fjallað um mál systkinanna Patrick Stuebing og Susan Karolewski í Þýskalandi en systkinin eru elskendur og hafa búið saman í Leipzig í austurhluta landsins undanfarin sex ár. Þau eiga fjögur börn en öll nema það yngsta hafa verið tekin af þeim og komið í fóstur. Systkinin berjast nú fyrir að lög gegn sifjaspelli verði felld úr gildi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Það líta margir á þetta sem glæp en við höfum ekki gert neitt rangt,” segir Patrick, sem er atvinnulaus lásamiður. „Við erum eins og hverjir aðrir elskendur. Við viljum stofna fjölskyldu. Fjölskylda okkar sundraðist þegar við vorum ung og síðar náðum við Susan saman aftur.”

Patrick, sem nú er þrítugur, var ættleiddur er hann var barn og alinn upp í Potsdam. Hann hitti ekki líffræðilega fjölskyldu sína á ný fyrr en árið 2000 er hann leitaði hana uppi. „Þegar ég var yngri vissi ég ekki að ég ætti bróður,” segir Susan, sem nú er 22 ára. „Síðan hitti ég Patrick og ég var svo hissa.” Þá segist hún ekki hafa sektarkennd yfir sambandi þeirra. „Ég vona að lögunum verði breytt. Ég vil bara búa með fjölskyldu minni og fá frið fyrir yfirvöldum og dómstólum.”

„Börnin okkar búa hjá fósturforeldrum. Við tölum eins oft við þau og mögulegt er en yfirvöld hafa svipt okkur svo miklu. Einungis yngsta dóttir okkar Sofia býr hjá okkur.

Ástarsambönd náinna ættingja eru bönnuð með lögum í Þýskalandi og hefur Patrick Stuebing þegar afplánað tveggja ára dóm vegna sambands síns við systur sína. Þá á hann annan fangelsisdóm yfir höfði sér verði lögunum ekki breytt en Endrik Wilhelm, lögfræðingur systkinanna, hefur höfðað mál fyrir hæstarétti til að freista þess að fá lög gegn sifjaspelli ógild.

„Samkvæmt þýskum lögum frá 1871 er það glæpur hafi nánir ættingjar samræði og varðar það þriggja ára fangelsisdómi. Þetta eru úrelt lög og þau brjót gegn mannréttingum parsins,” segir Wilhelm. „Hvers vegna mega fatlaðir eiga börn, þeir sem bera arfgenga sjúkdóma og konur yfir 40 ára aldri? Það segir enginn að það sé glæpur. Þetta fólk skaðar ekki neinn. Þetta er mismunun og við megum ekki gleyma því að hvert barn er verðmætt."

Juergen Kunze, erfðasérfræðingur við Charite sjúkrahúsið í Berlín, segir hins vegar gilda ástæðu fyrir lögunum enda séu 50% líkur á því að erfðagallar komi fram í afkvæmum systkina.

Patrick, sem gekkst undir ófrjósemisaðgerð árið 2004, segir hins vegar ekki rétt að börn þeirra séu fötluð. „Eric elsta barnið okkar er með flogaveiki en hann fæddist tveimur mánuðum fyrir tímann og á einnig við námserfiðleika að stríða. Hin dóttir okkar Sarah hefur sérþarfir,” segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert