Bill vildi skilnað frá Hillary árið 1989

Hillary og BIll Clinton.
Hillary og BIll Clinton. Reuters

Fullyrt er í nýrri bók um Hillary Rodham Clinton, að Bill, eiginmaður hennar, hafi viljað fá skilnað árið 1989. Hillary hafi hins vegar ekki þótt fýsilegt að verða einstæð móðir og neitaði að gefa eiginmanninum skilnað.

Hillary Clinton býður sig nú fram sem forsetaefni Demókrataflokksins, og hafa liðsmenn kosningabaráttu hennar beðið áhyggjufullir eftir útkomu tveggja bóka um frambjóðandann. Báðar eru bækurnar skrifaðar af þekktum og virtum blaðamönnum, annars vegar Carl Bernstein, sem á sínum tíma fletti ofan af Watergate-hneykslinu ásamt Bob Woodward, hins vegar Jeff Gerth og Don Van Natta sem hafa árum saman starfað fyrir The New York Times. Þessar bækur skipta því meira máli en það sem ritað hefur verið um Clinton af pólitískum andstæðingum hennar.

Meðal þess sem kemur fram í bókunum er, að Hillary taldi að kjör Bills í embætti forseta Bandaríkjanna árið 1992 myndi bjarga hjónabandi þeirra, vegna þess að Bill myndi ekki gera hlaupið útundan sér í sviðsljósi forsetaembættisins.

Þá óttaðist Hillary að hún kynni að eiga yfir sér ákæru fyrir meinsæri í tengslum við rannsókn Kenneths Starrs vegna yfirlýsinga sem hún gaf um horfin gögn í svonefndu Whitewatermáli.

Þá er fullyrt, að Clintonhjónin hafi gert með sér leynilegt samkomulag um 20 ára verkefni um að þau yrðu bæði forsetar Bandaríkjanna.

Bandarískir fjölmiðlar segja, að þótt ýmsar nýjar upplýsingar komi fram í bókunum um hjónaband og heimilislíf Clintonhjónanna sé þar ekkert nýtt um hugsanlegt fjárhagslegt eða pólitískt misferli sem kynni að skaða kosningabaráttu Hillary.

Það sem helst er talið geta skaðað Clinton er sú fullyrðing í bók þeirra Gerhts og Van Natta, að hún hafi ekki lesið leynilega skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar um meint gereyðingarvopn Saddams Husseins áður en hún ákvað 2002 að styðja tillögu um innrás ef önnur ráð brygðust. Ýmsir fyrirvarar voru settir í skýrslunni við fullyrðingar um vopnaeignina.

Starfsmenn Clinton hafa ekki borið á móti þessu en bent á, að skrár þingsins sýni, að aðeins sex þingmenn hafi lesið skýrsluna.

Í bók Bernsteins kemur fram, að Bill Clinton hafi á ofanverðum níunda áratug síðustu aldar orðið ástfanginn af konu í Little Rock, sem hét Marilyn Jo Jenkins, en Bill var þá ríkisstjóri í Arkansas. Bill bað Hillary um skilnað. Bernstein hefur eftir Diane Blair, einni af bestu vinkonum Hillary, að hún hafi haft áhyggjur af því hvernig henni myndi ganga að sjá fyrir dóttur þeirra ef hún yrði einstæð móðir. Sagði Hillary við Betsey Wright, starfsmannastjóra eiginmanns síns, að það yrði ekkert af skilnaði: „Það er ýmislegt verra til en framhjáhald," sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert