Fjárlagahalli sá mesti í sögu Bandaríkjanna

Jo Bonner og Jeb Hensarling, þingmenn Repúblikanaflokksins, með eintak af …
Jo Bonner og Jeb Hensarling, þingmenn Repúblikanaflokksins, með eintak af fjárlagafrumvarpinu. AP

Í fjárlögum næsta árs, sem ríkistjórn Georges W. Bush Bandaríkjaforseta lagði fram í dag, er gert ráð fyrir auknum útgjöldum til hermála og heimavarnarmála og minnkandi sköttum. Fjárlagahalli hefur aldrei verið meiri í sögu Bandaríkjanna eða um 304 milljarðar dala á þessu fjárlagaári sem hófst 1. október í fyrra, og 307 milljarðar dala því næsta sem hefst 1. október. Gamla metið átti George Bush, faðir núverandi forseta, árið 1992, þegar fjárlagahallinn var 290 milljarðar dala.

Bandaríkjastjórn segir hins vegar að þessar tölur séu ekki sambærilegar þar sem fyrir 11 árum hafi fjárlagahallinn verið 6% af vergri landsframleiðslu en væntanlegur halli nú sé um 3% af landsframleiðslu.

„Með fjárlögunumn fyrir árið 2004 er stefnt að því að ná þrennum markmiðum: Að vinna stríðið gegn hryðjuverkum, að verja heimalandið og örva efnahagsvöxt til langs tíma," segir í orsendingu frá Bush sem fylgir fjárlagafrumvarpinu. „Efnahagssamdráttur og stríð sem við kusum ekki, hafa leitt til þess að fjárlög eru lögð á ný fram með halla."

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að útgjöld hins opinbera aukist um 4,2% í 2,23 billjónir dala á næsta fjárlagaári, og að tekjur aukist um 4,7% í 1,92 billjónir dala.

„Ríkisstjórn mín telur að halda eigi fjárlagahalla í skefjum og úr honum verður dregið þegar efnahagurinn styrkist og öryggi þjóðarinnar hefur verið tryggt," segir Bush.

Margir demókratar, og einnig nokkrir repúblikanar, hafa lýst efasemdum vegna þeirrar stefnu Bush að lækka skatta, þar á meðal að afnema nánast skatt á arð af hlutabréfum, með það fyrir augum að blása lífi í efnahag landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert