Íraskir olíupeningar notaðir til hjálpar- og uppbyggingarstarfa

Bandaríkjamenn og Bretar eru að semja áætlun um notkun íraskra olíupeninga til hjálpar- og uppbyggingarstarfa í Írak. Um er að ræða 40 milljarða dollara vörslureikning er yrði í umsjá Kofi Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna (SÞ), að sögn fréttastofunnar Associated Press.

Með áætluninni hyggjast stjórnvöld í Washington og London létta eigin byrðar vegna uppbyggingar og umönnunar milljóna Íraka sem stríðið mun koma við kaunin á með einum hætti eða öðrum.

Áætlunin gerir ráð fyrir að allar tekjur af olíusölu frá Írak renni í vörslusjóð SÞ sem notaður hefur verið til að kaupa matvæli og lyf til hjálparstarfa í Írak.

Hún gerir og ráð fyrir því að stjórn Saddams Hussein verði velt úr sessi tiltölulega fljótlega, en búist er við að tillaga að áætluninni verði lögð fyrir öryggisráðið á næstu dögum, að sögn háttsettra stjórnarerindreka hjá SÞ.

Til að stuðla að skjótri afgreiðslu tillögunnar er ráð fyrir því gert, að Annan beri hana upp fremur en sendiherrar Breta eða Bandaríkjanna. Gert er ráð fyrir því í tillögunni að stjórnvöld í Washington og London hafi engan beinan aðgang að olíutekjum Íraka í vörslusjóði SÞ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert