Þjófar voru með lykla að læstum hirslum á fornminjasafni í Bagdad

Eyðileggingin á þjóðminjasafni Íraks varð mikil.
Eyðileggingin á þjóðminjasafni Íraks varð mikil. AP

Sumir þeirra sem fóru ránshendi um fornminjasafn í Bagdad, höfuðborg Íraks, virðast hafa skipulagt sig vel og höfðu í sumum tilvikum lykla að peningaskápum safnsins og gátu því tekið verðmæta gripi þaðan, að því er sérfræðingar á alþjóðlegum fundi um málið greindu frá. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, kallaði saman um 30 sérfræðinga á sviði lista og menninga til fundar í París í dag til að meta þann skaða sem írösk söfn hafa orðið fyrir af völdum rána og skemmdarverka í kjölfar stríðs Bandaríkjamanna og Breta gegn Írak.

Þó svo að mikið af ránunum og gripdeildunum hafi verið handahófskenndar þá segja sérfræðingar að sumir þjófanna hafi greinilega vitað að hverju þeir voru að leita og hvar þeir myndu finna það.

„Það lítur út fyrir að hluti ránanna hafi verið skipulagður,“ segir McGuire Gibson, prófessor við Háskólann í Chicago og forseti bandarískra samtaka um rannsóknir í Bagdad. „Þeir voru með lykla að peningaskápum og gátu tekið þaðan mikilvæg gögn frá tíma Mesapótamíu,“ sagði Gibson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert