Húseigandinn sagður hafa viljað losna við syni Saddams

Uday, Saddam og Qusay.
Uday, Saddam og Qusay. AP

Háttsettir bandarískir embættismenn hafa staðfest að talið sé líklegt að þeir Uday og Qusay, tveir elstu synir Saddams Husseins fyrrum forseta Íraks, hafi verið meðal þeirra sem féllu í löngum skotbardaga í Mosul í Norður-Írak í morgun. Fox sjónvarpsstöðin hefur eftir embættismönnum að líkurnar á þessu séu taldar 90-95%. Embættismennirnir, sem fréttastofur vitna til, vilja ekki láta nafns síns getið en einn þeirra segir að beðið sé niðurstöðu DNA-rannsóknar áður en formleg staðfesting verði gefin út á að um syni Saddams sé að ræða.

AFP fréttastofan hefur eftir ættingjum Nawafs al-Zaidans, eiganda hússins og öðrum heimamönnum í Mosul, að al-Zaidan hafi komið upplýsingum til Bandaríkjahers um að Uday og Qusay og lífvörður að nafni Abdul Samad hafi leitað skjóls í húsi hans og hann vilji losna við þá.

Íbúar í Mosul segja að skotið hafi verið á húsið úr bandarískum herþyrlum eftir að skotbardagi braust út þegar bandarískir hermenn reyndu að komast þar inn. Bardaginn stóð í fjórar stundir en síðan voru fjögur brunnin lík borin út úr húsinu.

Kúrdneskur embættismaður sagði AFP að Uday og Qusay hefðu verið meðal þeirra sem féllu í bardaganum. Svæðið var enn girt af síðdegis í dag.

Aðrir sjónarvottar hafa sagt AFP í Baghdad að al-Zaidan, sjeik í Bu Issa ættbálknum, og sonur hans hefðu verið handteknir í kjölfar bardagans. Skotið hafi verið allt að 20 flugskeytum úr þyrlum á húsið og er það nú rústir einar.

Bandaríkjaher hefur sett 25 milljónir dala til höfuðs Saddams og 15 milljónir til höfuðs sona hans. Qusay var næstráðandi föður síns í ríkisstjórn Íraks og líklegur arftaki hans. Hann stjórnaði öryggissveitum Íraks og hersveitum Lýðveldisvarðarins svonefnda. Uday var kunnur fyrir grimmd. Hann stjórnaði svonefndum Fedayeen-sveitum, sem börðust við Bandaríkjaher í Íraksstríðinu en talið er að félagar úr þeim sveitum standi nú fyrir skæruhernaði gegn Bandaríkjamönnum í Írak.

Saddam á þriðja soninn og þriggja dætra en lítið hefur borið á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert