Sykur- og gosdrykkjaneysla ungs fólks vandamál

Unglingar neyta of mikils sykurs og drekka gosdrykki í óhófi …
Unglingar neyta of mikils sykurs og drekka gosdrykki í óhófi að því fram kemur í skýrslu Manneldisráðs mbl.is

Ungt fólk á Íslandi neytir sykurs og gosdrykkja í óhófi, en fiskneysla í hópi þess fer minnkandi að því er fram kemur í nýrri skýrslu Manneldisráðs, sem gefin er út af Lýðheilsustöð og geymir helstu niðurstöður nýrrar könnunar á mataræði Íslendinga. Á blaðamannafundi, þar sem skýrslan var kynnt, kom fram að strákar á aldrinum 15-19 ára drekka að meðaltali tæpan lítra af gosdrykkjum á dag. Sykurneysla þeirra er jafnframt meiri en góðu hófi gegnir, eða um 143 grömm af viðbættum sykri á dag. Stúlkur á sama aldri drekka minna af gosi, en þess í stað drekka þær meira af vatni og sódavatni. Um 20% stúlkna í rannsókninni sögðust aldrei drekka sykrað gos. Um 55% af öllum viðbættum sykri í fæði strákanna kemur úr gosi og sætum drykkjum en stúlkur fá um þriðjung sykursins úr gosi.

Rannsóknin sýnir að hin mikla sykurneysla ungs fólks hefur marktæk áhrif á hollustu þeirrar fæðu sem það neytir. Því meiri sem sykurneyslan er hjá ungu fólki, því fábreyttara er fæðið.

Pizzan leysir fiskinn af hólmi sem þjóðarréttur ungs fólks

Í niðurstöðum könnunarinnar segir jafnframt að væntanlega komi það fáum á óvart að mataræði ungs fólks og eldra er að mörgu leyti gjörólíkt. Ungt fólk borðar til að mynda tólf sinnum meira af frönskum kartöflum, tuttugu sinnum meira af pizzu og drekkur tíu sinnum meira af gosi en eldra fólk. Svo virðist sem pizzan hafi leyst fiskinn af hólmi sem þjóðarréttur ungra Íslendinga, en ungt fólk borðar þrisvar sinnum minna af fiski en þeir elstu. miklar breytingar hafa orðið á mataræði hér á landi síðustu 12 árin, eða frá því að síðasta landskönnun var gerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka