Rumsfeld bannar notkun myndavélafarsíma meðal hermanna í Írak

Frá hinu illræmda Abu Ghraib-fangelsi.
Frá hinu illræmda Abu Ghraib-fangelsi. AP

Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur bannað notkun myndavélafarsíma á svæðum bandaríska hersins í Írak. Því er haldið fram að nokkrar af þeim ljósmyndum, sem sýna misþyrmingar á íröskum föngum í Abu Ghraib-fangelsinu, hafi verið teknar með myndavélafarsímum, samkvæmt heimildum innan úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Af þeim sökum hefur ráðuneytið bannað notkun stafrænna myndavéla, upptökuvéla og myndavélafarsíma á svæðum hersins. Þá er stefnt að því að banna slíkan búnað almennt meðal bandarískra hermanna. Nýjar ljósmyndir af misþyrmingum á föngum Bandaríkjamanna komu fram í Washington Post á föstudag. Þá var vitnað í fyrrum fanga í Abu Ghraib sem sagði að fangar hefðu verið misnotaðir kynferðislega af kvenkynshermönnum, barðir og neyddir til þess að éta mat úr klósettskálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert