Forsetinn á að geta skrifað undir nýju lögin

Halldór Ásgrímsson sagði að loknum þingflokksfundi Framsóknarflokks í gærkvöld að veigamiklar breytingar fælust í hinu nýja frumvarpi. Með nýjum gildistökutíma laganna gætu kjósendur látið hug sinn koma fram í kosningum vorið 2007 og nýr meirihluti á Alþingi þá breytt lögunum ef hann vildi.

Halldór sagðist vona að stjórnarandstaðan þægi boð ríkisstjórnarinnar um að vinna að málinu og að enginn vafi væri á að forsetinn ætti frekar að geta skrifað undir hin nýju lög. "Hér er um nýtt mál að ræða og vonandi tekst um það góð sátt. Forsetinn hefur lagt áherslu á að slík sátt náist og við höfum boðið stjórnarandstöðunni að koma að vinnslu málsins. Allt þetta ætti að vera mikilvægt fyrir forsetann, miðað við þá afstöðu sem hann tók," sagði Halldór. Hann sagði hina nýju leið heppilegri, m.a vegna þeirrar réttaróvissu sem skapast hefði í málinu.

"Það er því miður staðreynd að ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar er á margan hátt ófullkomið og það hefur reynst erfitt að skapa nægilega réttarvissu í kringum það. Það eru mismunandi skoðanir og mikilvægt að reyna að komast framhjá því."

Stjórnarsamstarfið ekki í hættu

Hann sagði stjórnarsamstarfið ekki hafa verið í hættu vegna málsins en ljóst að það hefði reynt á alla við að finna lausn á málinu.

Spurður hvar hugmyndin að þessari leið hefði fæðst sagði Halldór að hún hefði komið upp í samtölum hans og forsætisráðherra.

"Hún tók ýmsum breytingum í vinnslu okkar á milli og með þeim aðilum sem við höfðum okkur til aðstoðar," sagði Halldór og hafnaði því að þessi leið væri farin vegna deilna um lagasetningu varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

"Með þessu frumvarpi, sem verður flutt, er ramminn settur og síðan halda menn áfram með vinnuna. Ég held að það sé mikilvægt að þessi rammi liggi fyrir því ég hef engan hitt sem ekki telur nauðsynlegt að það séu lög um þessi mál. Um það eru allir sammála og nú fá allir að koma að því borði," sagði Halldór.

Hann sagði að frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur yrði nú lagt til hliðar í sumar og tekið upp síðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert