Afar ósáttur við framöngu forustu Framsóknarflokksins

Sveinn Bernódusson, formaður Framsóknarfélags Bolungarvíkur og miðstjórnarfulltrúi í aldarfjórðung, segist í viðtali við fréttavef Bæjarins besta vera afar ósáttur við framgöngu forystu Framsóknarflokksins að undanförnu í fjölmiðlamálinu og segist engan framsóknarmann hafa hitt sem styðji framgöngu forystu flokksins í því máli. Hann segist ekki vera að yrkja Framsóknarakurinn til þess að fara í kosningabandalag með Sjálfstæðisflokknum í næstu kosningum.

Sveinn segir í viðtalinu að ríkisstjórnin sé búin að koma sér í fráleita stöðu. Sú harka sem beitt hafi verið í þessu máli sé með ólíkindum og toppnum hafi verið náð þegar ákveðið var að draga lögin til baka og leggja fram nýtt frumvarp um fjölmiðla með þeim orðum að þau yrðu lögð í dóm kjósenda í næstu alþingiskosningum.

„Það þýðir að búið er að mynda kosningabandalag með Sjálfstæðisflokknum í þeim kosningum. Ég fullyrði að enginn framsóknarmaður hefur áhuga á slíku bandalagi með Sjálfstæðisflokknum. Ég vil sem minnst af þeim flokki vita. Ég hef gegnt trúnaðarstörfum í Framsóknarflokknum í áratugi. Ég hef setið í miðstjórn flokksins í aldarfjórðung og hef ræktað mínar skyldur af fremsta megni. Ég hef ekki unnið við að yrkja framsóknarakurinn til þess að sjálfstæðismenn njóti ávaxtanna.“

Þá segist Sveinn vera mjög ánægður með framgöngu Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns, í fjölmiðlamálinu. „Mér þykir hann hafa staðið mjög heiðarlega að því máli. Ég tel mig hafa vissu fyrir því að hann eigi sér skoðanasystkin í þingflokknum. Vonandi koma þau fram fyrr en seinna og þannig verði hægt að bjarga því sem bjargað verður í þessu máli. Ég hef engan framsóknarmann hitt sem styður þennan málatilbúnað."

Viðtal bb.is við Svein Bernódusson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert