Barsebäck kjarnorkuverinu lokað á næsta ári

Barsebäck kjarnorkuverið.
Barsebäck kjarnorkuverið.

Svíar ætla á næsta ári að loka síðari kjarnaofninum í Barsebäck kjarnorkuverinu við Eyrarsund og segja sænskir embættismenn að þetta sé í samræmi við áætlun um að draga úr notkun kjarnorku í landinu. Undirbúningur undir lokunina hefst nú þegar. Öðrum ofninum í Barsebäck var lokað árið 1999 og til stóð að loka hinum á síðasta ári en af því varð ekki.

Nú eru 11 kjarnaofnar í rekstri í landinu. Árið 1997 kynntu sænsk stjórnvöld áætlun um að draga jafnt og þétt úr notkun kjarnorku til rafmagnsframleiðslu en 17 árum áður samþykktu Svíar í þjóðaratkvæðagreiðslu að stefna ætti að því að hætta notkun kjarnorku.

Ríkisstjórnin ákvað síðan að fresta því að loka Barsebäck verinu vegna þess að ekki hafði tekist að finna aðrar orkulindir í staðinn. Nú eru áform um að leggja nýja gasleiðslu milli Svíþjóðar og Þýskalands og einnig eru áform um aukinn innflutning á raforku frá Finnlandi. Sagði Leif Pagrotsky, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Svíþjóðar, að nú séu Svíar tilbúnir til að loka verinu.

Jafnaðarmannaflokkurinn, sem fer með stjórn landsins, hefur fengið stuðning Vinstriflokksins, sem styður ríkisstjórnina, og Miðflokksins, sem er í stjórnarandstöðu, við að loka Barsebäck. Sænska þingið hefur hins vegar ekki lagt blessun sína yfir áætlunina.

Nærri helmingur af þeirri raforku sem Svíar nota er framleiddur í kjarnaofnunum ellefu. Svíar framleiða einnig rafmagn í olíuknúnum raforkuverum, vatnsaflsverum, með vinmyllum og fleiri aðferðum.

Barsebäck kjarnorkuverið hefur verið þyrnir í augum Dana enda er það í suðurhluta Svíþjóðar, aðeins um 40 km frá Kaupmannahöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert