30 á sjúkrahús eftir rútuslys undir Akrafjalli

Rútan fór á hvolf, eins og sést á myndinni.
Rútan fór á hvolf, eins og sést á myndinni. mbl.is/Jón Gunnlaugsson

Rúta fauk af veginum og valt undir Akrafjalli á áttunda tímanum í morgun. Um borð voru 45 starfsmenn Norðuráls á leið í vinnu, flestir búsettir á Akranesi, og voru 30 fluttir á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar. Guðjón Brjánsson, framkvæmdastjóri Sjúkrahússins á Akranesi, segir að enginn hinna slösuðu hafi verið alvarlega slasaður, en tveir hafi verið fluttir á Landspítala-Háskólasjúkrahús til aðhlynningar.

Guðjón segir að meiðsli fólksins hafi verið mjög mismunandi. 12 hafi verið með sárskaða, meiri eða minni meiðsli á borð við beinbrot. „Af þeim voru 9 lagðir inn og þeim kann að fjölga upp í 11. Tveir voru sendir til Reykjavíkur til frekari rannsóknar,“ segir hann. Sjúkrabílum var ófær leiðin til Reykjavíkur fyrst eftir slysið, en komust á endanum leiðar sinnar.

Guðjón segir að sjúklingarnir tveir séu ekki alvarlega slasaðir. „Nei, það var enginn alvarlega slasaður. Þetta var meira gert í öryggisskyni.“

Það vildi til happs, að lítil rúta frá Járnblendiverksmiðjunni átti leið hjá slysstað og gat flutt nokkra hinna slösuðu á sjúkrahúsið. Sjúkrabílar sóttu þá sem eftir voru.

Rannsókn, aðhlynning og læknismeðferð stendur nú yfir, en Guðjón segir að lán hafi verið í óláni að klukkan átta í morgun hafi verið vaktaskipti á sjúkrahúsinu. Sömuleiðis hafi starfsemi á skurðdeildum ekki verið hafin. Því hafi allt tiltækt starfsfólk sjúkrahússins verið á staðnum, til að sinna hinum slösuðu.

Guðjón segir að unnið hafi verið eftir hópslysaáætlun sjúkrahússins, sem hafi verið allvel æfð. Þetta hafi gengið skipulega fyrir sig, þótt þröng hafi verið á þingi. Þá hafi borið að fjölskyldur fólksins, sem er sem fyrr segir flest af Akranesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert