Segir bandarískt herlið í Írak hafa drepið óbreytta borgara

Fyrrum yfirmaður í landgönguliði Bandaríkjahers í Írak, sagði í gær að menn úr hersveit sinni hefðu drepið meira en 30 íraska borgara á tveggja daga tímabili í suðurhluta Bagdad, höfuðborg Íraks, í vor. Þessi ummæli yfirmannsins, féllu þegar hann bar vitni hjá innflytjendastofnun Kanada í þágu Jeremy Hinzman, 26 ára liðhlaupa úr hernum, sem sótt hefur um hæli í Kanada.

Frá þessu greinir bandaríska fréttastofan ABC. Yfirmaðurinn, Jimmy Massey sagði við innflytjendayfirvöld Kanada að allnokkrir félagar í hersveit sinni í Írak væru „geðsjúklingar“ sem hefðu notið þess að taka íraska borgara, sem ekki hefðu ógnað neinum, af lífi.

Massey sagði að meðal fórnarlambanna hefðu verið óvopnaðir mótmælendur og ökumaður, sem rétt hafði hendur upp fyrir höfuð sitt, sem merki um uppgjöf.

Bandaríkjaher fullyrðir að ásakanir Masseys séu rangar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert