Ákærð fyrir morð á nunnu sem lést við særingarathöfn

Rúmenskur munkur og fjórar nunnur hafa verið kærð fyrir morð eftir lát nunnu sem þau voru að framkvæma særingarathöfn á. Hún lést eftir að þau höfðu bundið hana við kross og ekki gefið henni mat í þrjá daga, að því er saksóknari sagði í dag.

Daniel Petre Corogeanu hafa verið kærð fyrir morð og frelsisskiptingu eftir að þau báru vitni fyrir saksóknara. Þau eru í haldi lögreglu, að sögn Ovidiu Berinde saksóknara.

Dómstóll mun síðar í dag ákveða hvort eigi að úrskurða þau í 30 daga gæsluvarðhald. Ef þau verða fundin sek eiga þau yfir höfði sér 25 ára fangelsisdóm.

Maricica Irina Cornici, 23 ára nunna, lést í klaustri heilagrar þrenningar í norðausturhluta Rúmeníu í síðustu viku. Hún hafði verið bundin við kross handklæði sett upp í hana og skilin þannig eftir í þrjá daga án þess að fá nokkuð að borða.

Málið hefur vakið mikla reiði í Rúmeníu. Corogeanu hefur verið leystur frá störfum og klaustrinu hefur verið lokað. Mótmæli voru fyrir utan skrifstofu saksóknara í borginni Vaslui í gær þar sem sumir studdu munkinn og nunnurnar en aðrir kröfðust þess að þeim yrði refsað.

Corogeanu, 29 ára, virðist ekki telja sig hafa gert neitt rangt. Þegar hann messaði við jarðaför nunnunnar á sunnudag sagðist hann hafa verið að reyna að taka djöflana úr konunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert