Hávær tónlist í heyrnatólum getur valdið viðvarandi eyrnasuði

Drengur hlustar á iPod í Apple búð í Palo Alto …
Drengur hlustar á iPod í Apple búð í Palo Alto í Kalíforníu. AP

Fjórðungur þeirra sem nota ferðaspilara á borð við iPod að staðaldri og spila tónlist á miklum styrk í heyrnatólum eiga á hættu að fá viðvarandi suð (e. tinnitus) í innra eyra. Þeir sem þjást af eyrnasuði hafa stöðugan tón fyrir öðru eða báðum eyrum, sem dynur á viðkomandi allan sólarhringinn.

Það var stofnun í Ástralíu á sviði eyrnalækninga sem stóð fyrir því að kanna ástand þeirra sem nota iPod og aðra ferðaspilara sem komst að því að þeir sem hlusti á tónlist yfir eðlilegum mörkum eigi á hættu að fá eyrnasuð. Harvey Dillon, yfirmaður stofnunarinnar, segir að þeir sem það geri séu annaðhvort að reyna að útiloka umhverfishljóð eða vilja heyra tónlistina betur.

Niðurstöður könnunarinnar benda til að þegar hljóðstyrkurinn sé kominn yfir 85 desíbil þá sé hætta á að viðkomandi fái suð í innra eyra. Slíkt er erfitt að losna við. Sagði Dillon, að notendur ferðaspilara og háværra verkfæra á borð við borvéla og sláttuvéla þyrftu að minnka styrkinn. Þá varaði hann við því að það geti liðið nokkur ár þar til áhrif hárrar tónlistar verði ljós. Þá sé hins vegar of seint að ætla að lækka í tækjunum enda skaðinn skeður.

SKY

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert