Íslandsmet í hópknúsi slegið við Háskóla Íslands

Íslandsmet var sett í hópknúsi við styttuna af Sæmundi við …
Íslandsmet var sett í hópknúsi við styttuna af Sæmundi við Háskóla Íslands í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslandsmet í hópknúsi var slegið hjá styttunni af Sæmundi á selnum framan við Háskóla Íslands klukkan tvö í dag. Hópknúsið, sem auka á samkennd og kærleika innan háskólasamfélagsins, er liður í árlegum Stúdentadögum þar sem nýnemar eru boðnir velkomnir í skólann. Talið var inn í knúsið með sérstökum teljara til ná þeim fjölda sem þurfti til svo íslandsmetið springi. Úrhelli skall á í sama mund og hópknúsið fór fram en það aftraði 156 þátttakendum ekki frá því að slá íslandsmet, að sögn Önnu Pálu Sverrisdóttur, formanns nýnemaviku- og Stúdentadagsnefndar.

Margt annað er í boði á Stúdentadeginum. Var meðal annars slegið upp tjaldi og grillaðar pylsur á meðan nemendur föðmuðust í rigningunni. Sagði Anna Pála að fjöldi manns hafi beðið af sér skúrinn í tjaldinu. Hefði hópknúsið orðið enn stærra ef ekki hefði verið fyrir rigninguna. Í tjaldinu lék hljómsveitin Ske fyrir gesti og gangandi.

Stúdentadagurinn var settur í Hátíðarsalnum í Háskóla Íslands á hádegi í dag með ræðukeppni á milli stúdenta og kennara. Var þar rætt um það, hvort konur væru að taka yfir í þjóðfélaginu. Hannes Hólmsteinn var valinn ræðumaður keppninnar. Hannes talaði hins vegar svo langt yfir settan ræðutíma að hann hlaut umtalsverðan fjölda refsistiga, með þeim afleiðingum að lið kennara tapaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert