Vélfákar leysa hestana af hólmi í göngunum

Anna Halldórsdóttir, bóndi á Brú, með kind á fjórhjólinu.
Anna Halldórsdóttir, bóndi á Brú, með kind á fjórhjólinu. mbl.is/Ólafía Herborg

Smalað var um helgina á Brú, sem er efsti bær í Jökuldal og einhver landstærsta jörð landsins. Göngurnar hófust að þessu sinni á föstudag og lauk á sunnudag með því að það fé sem fannst á þessu svæði var rekið í girðingu á Brú. Hér áður fyrr var hesturinn þarfasti þjónninn og ómissandi í göngum og kaupstaðabörnum fannst spennandi að fá að setjast á bak. Nú eru það öðruvísi reiðskjótar sem heilla ungviðið því eingöngu eru notaðir vélfákar við smalamennsku á Brúaröræfum.

Áður fyrr voru mörg stærstu fjárbúin á þessu svæði en nú er einungis búið með fé á tveimur bæjum í Efri-Dal. Anna Halldórsdóttir, bóndi á Brú, segist vera með smábrot af því fé sem hún bjó með áður en hún er nú með hátt á annað hundrað fjár.

Eftir því sem bændum fækkar á svæðinu fer féð víðar og jafnframt er færra fólk í smalamennskunni. Því koma fjórhjól og önnur farartæki sér vel því auðvelt er að sækja fé, sem leitar út úr rekstrinum, á léttu hjólunum, upp á hæðir og niður í gilskorninga.

Við þessar göngur voru notuð létt mótorhjól, fjórhjól, sexhjól og einnig bifreiðar með kerrum til að flytja t.d. nesti og annan búnað sem til þurfti. Til að auðvelda göngurnar eru einnig notaðar kallstöðvar og annarskonar samskiptatæki og það sparar mikla vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka