Þrjú af sjö sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum samþykktu sameiningu

Íbúar í þremur af sjö sveitarfélögum í Norður og Suður-Þingeyjarsýslum, Húsavík, Öxarfjarðarhreppi og Raufarhafnarhreppi, samþykktu tillögu um að sveitarfélögin sameinuðust. Meirihluti íbúa í Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Tjörneshreppi og Kelduneshreppi felldu tillöguna. Þeir þurfa hins vegar að kjósa aftur innan sex vikna þar sem meirihluti íbúa í sveitarfélögunum samþykktu.

Í Skútustaðahreppi sögðu 75 já en 141 nei. Í Aðaldælahreppi sögðu 36 já en 113 nei. Í Húsavíkurbæ sögðu 348 já en 117 nei. Í Tjörneshreppi sögðu 17 já en 20 nei. Í Kelduneshreppi sögðu 28 já en 29 nei. Í Öxarfjarðarhreppi sögðu 81 já og 75 nei og í Raufarhafnarhreppi sögðu 55 já en 43 nei.

Í heildina samþykktu 640 íbúar tillöguna en 538 höfnuðu henni. Félagsmálaráðuneytið segir, að þar sem að minnsta kosti tvö sveitarfélög hafi samþykkt tillöguna og meiri hluti þeirra, sem afstöðu tóku í atkvæðagreiðslunni, lýsti sig fylgjandi sameiningartillögunni eigi íbúar þeirra sveitarfélaga, sem felldu tillöguna, að greiða því aftur atkvæði um sömu tillögu innan sex vikna, þ.e. eigi síðar en 15. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert