Mikilvægt að koma fólki í öruggt skjól

Barn fyrir utan tjald í indverska hluta Kasmír í gær.
Barn fyrir utan tjald í indverska hluta Kasmír í gær. AP

Hermenn og slökkviliðsnmenn notuðu hunda og kúbein við leit að líkum, sem talin eru vera í húsum sem hrundu til grunna í fjallaþorpum þegar jarðskálftinn reið yfir Indland og Pakistan á laugardag. Aðeins á eftir að leita í 10 þorpum af 140 á svæðinum. Talið er að 143.000 manns hafi misst heimili sín í inverska hluta Kasmír í skjálftanum, sem mældist 7,6 á Richter. Að sögn björgunarsveitarmanna er byrjað að snjóa á svæðinu en sex börn létust af völdum ofkælingar í nótt.

„Nú erum við að mestum hluta að flytja neyðarbirgðir á borð við tjöld, yfirbreiðslur, bambusreyr, lyf og teppi til hamfarasvæðanna. Það mun kólna mjög fljótlega,“ sagði S. C. Mukul, aðstoðaryfirmaður flugmála á svæðinu.

Flugvélar fljúga með mikið magn neyðarbirða til þeirra sem verst urðu úti í jarðskjálftanum en þetta er annar dagurinn í röð, sem veðurskilyrði eru góð.

Búist er við að björgunarsveitarmenn, sem eru fótgangandi, komist til síðustu 10 afskekktustu fjallaþorpanna innan skamms,“ að sögn Muftis Mohammed Sayeed, æðsta embættismanns í inverska hluta Kasmírhéraðs. Sagði hann nauðsynlegt að koma fólki í öruggt skjól enda fari hitastig hríðlækkandi og sé búist við næturfrosti. Séu teppi ekki næg vörn gegn kuldanum, að hans sögn.

Síðastliðna nótt létust sex börn af völdum ofkælingar í Kasmír. Sagði Sayeed, að tjöld veiti fórnarlömbum jarðskjálftans lítið skjól og verði að hefjast handa við að endurreisa hús mjög bráðlega.

Jarðskjálfti af stærðinni 5,6 á Richter reið yfir Pakistan í nótt en engar fregnir hafa borist um tjón af völdum hans.

Talið er að meira en 35.000 manns hafi látist í Pakistan af völdum jarðskjálftans á laugardag en 1,358 í indverska hluta Kasmír.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert