Hljómsveitirnar Green Day og Coldplay fengu tvenn verðlaun hvort á Evrópuverðlaunahátíð MTV sjónvarpsstöðvarinnar, sem fór fram í Lissabon í kvöld. Það var hins vegar sýndarhljómsveitin Gorillaz, sem valin var besta hljómsveitin á hátíðinni. Breski söngvarinn Robbie Williams var valinn besti karlflytjandinn og kólumbíska söngkonan Shakira var valin besti kvenflytjandinn.
Jamie Hewlett, annar stofnandi og teiknari Gorillaz, tók við verðlaununum fyrir hönd sveitarinnar og sagði: „Við erum besta hljómsveitin og við erum ekki einu sinni til!"
Green Day var valin besta rokksveitin og fékk einnig verðlaun fyrir bestu plötuna en Coldplay var valin besta breska eða írska sveitin og fékk einnig verðlaun fyrir besta lagið, Speed of Sound. The Black Eyed Peas var valin besta poppsveitin, James Blunt var valinn besti nýliðinn, Alicia Keys var valinn besti R&B flytjandinn og Snoop Dogg var valinn besti rapparinn svo nokkrir séu nefndir.
Sigurvegararnir voru valdir af tónlistaráhugafólki í Evrópu og Afríku sem greiddu atkvæði á vefsvæði MTV.
Gamanleikarinn Sacha Baron Cohen, öðru nafni Ali G, var kynnir á hátíðinni í gervi Kasakstanans Borat Sagdiyev. Madonna hóf hátíðina og flutti lag nýtt lag, Hung Up. Næst kom Borat á svið og sagði: Velkomin til evrópsku söngvakeppninnar árið 2005. Þessi söngvari hér á undan - hver var hann. Það sýnir mikið hugrekki af MTV að hefja hátíðina á raunverulegum klæðskiptingi."
Meðal þeirra sem komu fram voru Robbie Williams, Coldplay, Green Day, System of a Down, The Black Eyed Peas og Shakira. Meðal þeirra sem afhentu verðlaun voru Sugababes, t.A.T.u. og leikkonan Brittany Murphy.
Madonna afhenti einnig Sir Bob Geldof sérstök verðlaun fyrir mannúðarstarf hans.