Berrassaðir bankaræningjar gómaðir á hlaupum

Mennirnir í járnum við gatið þar sem göngin hrundu í …
Mennirnir í járnum við gatið þar sem göngin hrundu í gær. AP

Lögreglan í El Salvador gómaði tvo menn í gær sem hugðust ræna banka í höfuðborginni San Salvador. Göng sem þeir voru að grafa í átt að bankanum hrundu yfir þá og myndaðist gat í götu fyrir utan bankann. Mennirnir voru gripnir á hlaupum af lögreglu og voru þá allsberir og rykugir. Ástæða nektarinnar mun vera sú að mikill hiti var í göngunum og að mönnunum hafi þótt svalandi að grafa þau berrassaðir.

Undarleg hljóð höfðu heyrst á svæðinu og fylgdist lögreglan því með því. „Okkur tókst að koma í veg fyrir meiriháttar rán,“ sagði lögreglustjóri borgarinnar, Wilfredo Avelenda. Göngin hefðu legið að yfirgefnu húsi við hlið bankans. Mennirnir hafi skriðið upp úr gatinu þegar göngin hrundu og reynt að flýja en lögreglumenn hafi verið nærri og náð þeim. Annar þeirra er einungis 18 ára gamall en hinn 22ja ára.

Talsmaður lögreglunnar sagði göngin 75 metra löng. Rannsóknarlið lögreglu fór inn í göngin og sagði hitann strax hafa verið óbærilegan. Mikill hiti hefur verið í höfuðborginni undanfarnar vikur. Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert