Geislavirkt plútoníum horfið

Umhverfissinnar í Bandaríkjunum hafa bent á að svo virðist sem 270 kg af plútoníum hafi horfið frá rannsóknarstöð í Los Alamos í New Mexico fylki. „Það eru engar sannanir fyrir því að plútoníuminu hafi verið stolið eða því komið í hendur á ólöglegum aðilum. Hinsvegar hefur ekki verið gerð grein fyrir hvarfi um 300 kg af plútoníum sem er hæft til notkunar í kjarnavopn. Hugsanlegt er að magnið sé margfalt það og því er þetta áhyggjuefni og öryggismálum greinilega ábótavant.” Segir hin bandaríska orku og umhverfismálastofnun (IEER) í skýrslu sem birtist í dag.

Ekki er ljóst hvað varð um hið geislavirka efni sem notað var í kjarnorkusprengjutilraunir. Tilraunastofan segist fylgjast með hverju grammi af geislavirkum efnum en vildi ekki tjá sig nánar um málið.

Ýmsar getgátur eru uppi um hvað hafi orðið um plútoníumbirgðirnar, talið er að þær gætu hafa verið grafnar á tveimur stöðum mikið útþynntar sem er löglegt ef það er gert á nægilegu dýpi og í litlu magni en um það eru engar skýrslur. Annar möguleiki er að efninu hafi verið stolið eða það flutt úr geymslunum af ókunnum ástæðum. Einnig gæti verið um bókhaldsvandamál að ræða. Árlega er gerð nákvæm talning á öllu geislavirku efni á rannsóknarstöðinni og hefur það verið gert undanfarin tuttugu ár.

The San Fransico Chronicle skýrði frá málinu í dag. Til samanburðar má geta þess að kjarnorkusprengjunum sem varpað var á Japan í seinni heimstyrjöldinni notuðu sem svarar sex og hálfu kílói af plútoníum hvor. Innan við tvö prósent af því plútoníumi sem nú telst horfið dugar til að framleiða eina kjarnorkusprengju. Málið telst óupplýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert